Hafrún Rakel ristarbrotin

Blikar fagna öðru marka Hafrúnar Rakelar Halldórsdóttur í leiknum í …
Blikar fagna öðru marka Hafrúnar Rakelar Halldórsdóttur í leiknum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, leikmaður kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu kvenna, varð fyrir því óláni að ristarbrotna í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í gær.

„Já, það er staðfest. Þetta er metatarsal 5, ysta ristarbeinið sem brotnaði. Það fór alveg í sundur þannig að hún verður frá í nokkrar vikur,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is í dag.

Hafrún Rakel hafði byrjað leikinn gegn Þór/KA á Kópavogsvelli af gífurlegum krafti þar sem hún var þegar búin að skora tvö mörk en þurfti svo að fara meidd af velli á 38. mínútu þegar staðan var 3:0. Lauk leiknum með 4:1-sigri Breiðabliks.

Hún gæti verið frá í sex til átta vikur en Ásmundur sagðist vonast til þess að Hafrún Rakel yrði skemur frá.

„Það er kannski minna. Fimm til sex vikur er það sem við höfum núna í höndunum en það er svolítið snemmt að segja til um það. Vonandi verður þetta ekki meira, þetta er smá áfall,“ sagði Ásmundur að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert