Sannfærandi Blikar með fullt hús stiga

Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik er með níu stig eftir fyrstu þrjá leikina í Bestu deild karla eftir sannfærandi sigur á FH á Kópavogsvelli í kvöld, 3:0.

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði tvö markanna og Kristinn Steindórsson eitt. FH er með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina.

Blikar voru með undirtökin framan af leik og voru með boltann langtímum saman en gekk illa að finna glufur á þéttum varnarleik FH-inga þar sem Guðmundur Kristjánsson var í aðalhlutverki.

Nánast ekkert var um marktækifæri í fyrri hálfleiknum, Blikar komu ekki skotum á markið þrátt fyrir talsverða pressu og hinum megin vantaði herslumuninn á að FH-ingar kæmust í opin færi í snöggum sóknum. Oliver Heiðarsson var næstur því á 19. mínútu en Anton Ari Einarsson í marki Blika varði örugglega frá honum. Þá var Steven Lennon hættulegur á 40. mínútu en varnarmaður komst fyrir skot hans.

En í uppbótartíma fyrri hálfleiks var ísinn brotinn. Davíð Ingvarsson sendi boltann á Ísak Snæ Þorvaldsson á vinstri kantinum. Ísak komst framhjá varnarmanni FH og inn í vítateiginn og náði af harðfylgi að skjóta af vinstra markteigshorninu, föstu skoti undir Gunnar Nielsen í markinu, 1:0.

Blikar væru nærri því að bæta við marki í byrjun síðari hálfleiks en þung sókn endaði með skoti Kristni Steindórssyni yfir markið. Rétt á eftir björguðu FH-ingar naumlega í markteignum eftir hættulega fyrirgjöf frá hægri.

Jason Daði Svanþórsson prjónaði sig af harðfylgi inn á hægra markteigshorn FH-inga á 55. mínútu og Gunnar Nielsen varði skot hans í horn.

Blikar sóttu áfram af krafti og áttu hvert skotið á fætur öðru. Gunnar Nielsen varði vel í horn frá Gísla Eyjólfssyni og Kristinn Steindórsson og Viktor Karl Einarsson áttu hættulegar tilraunir. Hálfleiksræða Óskars Hrafn gekk greinilega út á að fylgja markinu eftir og bæta öðru við sem fyrst.

Og það gekk upp. Á 71. mínútu skoraði Kristinn Steindórsson, 2:0, þegar hann fylgdi á eftir skoti Ísaks Snæs af stuttu færi sem FH-ingar vörðu á marklínunni.

Aðeins mínútu síðar geystist Davíð Ingvarsson upp vinstri kantinn og sendi inn í markteiginn þar sem Ísak var mættur og skoraði með viðstöðulausu skoti, 3:0.

Þar með var dagskránni nánast lokið og Blikar sigldu sigrinum heim af öryggi.

Breiðabliksliðið kemur firnasterkt inn í þetta Íslandsmót eins og fyrirfram var búist við. Liðið heldur áfram á sömu keyrslu og á síðasta ári og eins og það spilar þessa dagana verður það lið sem ætlar sér Íslandsmeistaratitilinn í ár að finna svör við leikstíl Óskars Hrafns Þorvaldssonar og hans manna.

Sá sem hefur hinsvegar komið mest á óvart er Ísak Snær Þorvaldsson en hann hefur reynst Kópavogsliðinu gríðargóður liðsauki. Hann er þegar kominn með fjögur mörk í tveimur heimaleikjum og átti auk þess stóran þátt í einu markanna í kvöld. Auk Ísaks átti Gísli Eyjólfsson mjög góðan leik á miðjunni og Davíð Ingvarsson var stöðugt ógnandi á vinstri kantinum og kom að öllum þremur mörkunum.

FH-ingar náðu að halda Blikum í skefjum með góðum varnarleik í 45 mínútur en um leið og Kópavogsliðið var komið með yfirhöndina í leiknum var ljóst að FH væri í vandræðum. Hafnarfjarðarliðið er aðeins með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina en hefur reyndar mætt bæði Víkingi og Breiðabliki á útivelli, og á síðan heimaleik við Val í næstu umferð. Tveir tapleikir í byrjun móts gera hinsvegar að verkum að FH-ingar eiga erfitt verkefni fyrir höndum, ætli þeir sér að halda í við toppliðin í deildinni sem er eflaust þeirra markmið eins og alltaf.

FH-ingar söknuðu Kristins Freys Sigurðssonar sem tók út leikbann og Finns Orra Margeirssonar sem er meiddur í nára og var óleikfær í kvöld. Þá er Eggert Gunnþór Jónsson utan leikmannhópsins í bili. FH skortir breidd á við topplið deildarinnar til að ráða fyllilega við svona forföll.

Breiðablik 3:0 FH opna loka
90. mín. 2 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert