Blóðugt að lenda undir á þessum tíma

Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari FH á hliðarlínunni á Kópavogsvelli í kvöld.
Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari FH á hliðarlínunni á Kópavogsvelli í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari FH sagði eftir 3:0 ósigurinn gegn Breiðabliki í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld að það hefði verið blóðugt að lenda marki undir á lokasekúndum fyrri hálfleiks.

„Við vissum að þetta yrði erfitt en mér fannst við vera í fínu skipulagi í fyrri hálfleik. Blikar fengu engin færi og þetta var allt í þeim fasa sem við vildum. Auðvitað hefðum við viljað halda boltanum betur og vera hugaðri, en mér fannst við vera algjörlega með stjórnina hvað vörnina varðar," sagði Sigurbjörn við mbl.is.

„Svo fengum við á okkur þetta mark í uppbótartímanum í fyrri hálfleik sem var mjög blóðugt því við höfðum allan daginn til að þruma boltanum í burtu. Það var algjör óþarfi af okkar hálfu að lenda undir á þessum tímapunkti.

Við fórum yfir þetta í hálfleik og komum gíraðir inn í seinni hálfleikinn. Fyrsti hlutinn af honum var svipaður og fyrri hálfleikurinn og við vorum að reyna að setja meiri þunga í sóknina. Það var engin ástæða til að sprengja þetta upp strax en svo varð staðan 2:0 og strax 3:0, og þá var þetta orðið virkilega vont.

Blikarnir eru mjög öflugir hérna á þessum velli en við áttum að gera betur sóknarlega. Við vorum lengst af í okkar skipulagi og reyndum okkar besta, en þeir unnu okkur í dag og stundum er fótboltinn þannig," sagði Sigurbjörn.

Gaman að fá Val strax á föstudag

FH er með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina og hefur nú þegar tapað fyrir bæði Víkingi og Breiðabliki.

„Þetta er engin óskabyrjun og við vissum alveg að byrjunin á mótinu gæti orðið erfið. Við erum búnir með erfiða útileiki og eigum Val næst á heimavelli. En maður hefur líka byrjað mót á að vinna fyrstu fjóra fimm leikina án þess að enda þar sem maður hefði viljað, og svo öfugt. Það þýðir ekkert að horfa á það, nú mætum við gríðarlega öflugu Valsliði á heimavelli á föstudaginn og okkur líður vel þar. Það verður gaman að fá leik aftur strax á föstudag við besta liðið í deildinni.“

Finnur Orri Margeirsson lék ekki með FH í kvöld og Sigurbjörn sagði að hann væri meiddur.

„Hann fékk aðeins í nárann í síðasta leik og við vonum að hann verði ekki lengi frá. Það þýddi ekkert að reyna að láta hann spila í kvöld, það hefði verið óskynsamlegt," sagði Sigurbjörn Hreiðarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert