Fjölnir og Selfoss með fullt hús stiga

Fjölnismenn eru með fullt hús stiga í 1. deildinni.
Fjölnismenn eru með fullt hús stiga í 1. deildinni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Freyr Jónasson og Hákon Ingi Jónsson sáu um markaskorun Fjölnis þegar liðið vann öruggan sigur gegn Þór frá Akureyri, 4:1, í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Extra-vellinum í Grafarvogi.

Andri skoraði tvívegis fyrir Fjölni í fyrri hálfleik og Hákon bætti við tveimur mörkum til viðbótar fyrir Fjölnismenn í síðari hálfleik.

Harley Willard skoraði mark Þórsarar sem eru með 3 stig í sjöunda sætinu en Fjölnir er með fullt hús stiga eða 6 stig í efsta sætinu.

Þá gerðu Kórdrengir og Fylkir 1:1-jafntefli á á Framvelli í Safamýri þar sem Daníel Gylfason kom Kórdrengjum yfir á 39. mínútu áður en Þórður Gunnar Hafþórsson jafnaði metin fyrir Fylki á 70. mínútu.

Kórdrengir eru með eitt stig í níunda sætinu en Fylkir er í því fjórða með 4 stig.

Gary Martin skoraði svo tvívegis fyrir Selfoss þegar liðið vann 2:1-sigur gegn Gróttu á Jáverk-vellinum á Selfossi en Ólafur Eiríksson skoraði mark Seltirninga.

Selfoss er með 6 stig í öðru sætinu en Grótta er í því fimmta með 3 stig.

mbl.is