FH-ingurinn æfir með Breiðabliki áður en hann fer til Dortmund

William Cole Campbell í leik með FH gegn Breiðabliki í …
William Cole Campbell í leik með FH gegn Breiðabliki í upphafi mánaðarins. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Knattspyrnumaðurinn ungi, William Cole Campbell, heldur til þýska stórliðsins Borussia Dortmund frá FH næstkomandi júlí. Þangað til mun hann þó æfa með Breiðabliki.

Þetta staðfesti Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Sagði hann William Cole, sem er aðeins 16 ára gamall, farinn frá FH og að honum hafi vantað stað til þess að æfa áður en hann flytur til Þýskalands, sem Breiðablik hafi leyft honum að gera.

Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Dr. Football, hafði greint frá því að William Cole myndi fara til Breiðabliks í dag á twitteraðgangi sínum.

Þó er ekki um að ræða félagaskipti enda félagaskiptaglugginn hér á landi lokaður og kemur Breiðablik ekkert að skiptunum.

„[A]llt með Dortmund er klárt, frágengið. Breiðablik er ekkert að koma inn í þann díl. Hann vantaði bara stað til þess að æfa þangað til hann fer út,“ útskýrði Sigurður Hlíðar.

Hann kvaðst þá ekki vita af hverju William Cole væri farinn frá FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert