Lokaspretturinn hefst í dag

KR-ingar mæta KA-mönnum á Akureyri í dag.
KR-ingar mæta KA-mönnum á Akureyri í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Þrír leikir eru á dagskrá í Bestu deild karla í fótbolta í dag. Deildinni hefur verið skipt í tvennt í fyrsta skipti, þar sem efri sex liðin og neðri sex liðin mættast innbyrðis.

Eini leikurinn í efri hlutanum í dag er á milli KA og KR á Akureyri klukkan 15. KA er í þriðja sæti með 43 stig, jafnmörg stig og Víkingur úr Reykjavík sem er í öðru sæti.

Liðin eru átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks. KR er í fimmta sæti með 31 stig og í baráttunni um fjórða sætið við Val og Stjörnuna.

Fram og Leiknir mætast í Úlfarsárdal.
Fram og Leiknir mætast í Úlfarsárdal. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Tveir leikir eru í neðri hlutanum í dag. Annars vegar mætast Keflavík og ÍA í Keflavík klukkan 15 og hins vegar Fram og Leiknir í Úlfarsárdal.

ÍA er í botnsætinu með 15 stig og verður helst að ná í einhver stig gegn Keflavík, sem er í efsta sæti neðri hlutans með 28 stig. ÍA er fimm stigum á eftir Leikni, sem er í síðasta örugga sætinu með 20 stig, einu stigi á undan FH, sem er í fallsæti.

Fram er í öðru sæti neðri hlutans með 25 stig, sex stigum fyrir ofan fallsæti.

Leikir dagsins í Bestu deildinni:

Efri hluti:
15:00 KA – KR
Neðri hluti:
15:00 Keflavík – ÍA
17:15 Fram – Leiknir R.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert