Leikir um helgina færðir vegna veðurs

Birkir Már Sævarsson og Grétar Snær Gunnarsson mætast á Meistaravöllum …
Birkir Már Sævarsson og Grétar Snær Gunnarsson mætast á Meistaravöllum á morgun en ekki á sunnudag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Búið er að færa til tvo leiki í Bestu deild karla í fótbolta sem fram áttu að fara á sunnudaginn en þá er spáð mjög slæmu veðri um allt land.

KR og Valur áttu að leika á Meistaravöllum klukkan 13 á sunnudag en leiknum hefur verið flýtt og hann verður leikinn á morgun, laugardag, klukkan 14.

ÍBV og Keflavík áttu að mætast í Vestmannaeyjum á sunnudaginn en þeim leik hefur verið frestað um sólarhring og hann verður leikinn á Hásteinsvelli á mánudaginn klukkan 15.15.

Þá eiga KA og Breiðablik að mætast í  toppslag á Akureyri á sunnudaginn en viðbúið er að hann verði líka færður til því spáð er nánast aftakaveðri á norðausturhluta landsins.

mbl.is