Hareide vonar að Gylfi taki fram skóna að nýju

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton árið 2021.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton árið 2021. AFP

Åge Hareide, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu karla, bindur vonir við að Gylfi Þór Sigurðsson hefji knattspyrnuiðkun að nýju eftir að sakamál á hendur honum var látið niður falla.

Gylfi Þór var handtekinn í júlí árið 2021, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi, og var svo sleppt lausum gegn tryggingu. Lögreglan í Manchester rannsakaði málið í eitt og hálft ár og ákvað svo fyrir helgi að leggja ekki fram ákæru á hendur honum.

„Hann hefur ekki spilað um langt skeið. Hann lenti í hræðilegri aðstöðu og ég vona að hann taki skóna fram á ný. Lið hafa not fyrir svona hæfileikaríkan leikmann,“ sagði Hareide í samtali við norska miðilinn Dagbladet.

Spurður hvort hann hygðist sjálfur ræða við Gylfa Þór sagði Hareide:

„Fyrst verð ég að kynna mér stöðu hans áður en ég tjái mig um það“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert