Eitt það besta sem ég hef gert í lífinu

Pétur Pétursson á hliðarlínunni í kvöld.
Pétur Pétursson á hliðarlínunni í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Ég er hrikalega ánægður með að vinna þennan leik,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins gegn Breiðabliki í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

„Þetta var kaflaskiptur leikur, tveggja góðra liða, sem vildu bæði vinna hann en ekki tapa honum. Mér fannst bæði lið eiga góða kafla í fyrri og seinni hálfleik en sem betur fer tókst okkur að klára þetta.

Fyrsti leikurinn sem þetta tiltekna lið spilaði var gegn Stjörnunni í úrslitum deildabikarsins á dögunum og miðað við það þá fannst mér frammistaðan bara drullugóð hjá okkur,“ sagði Pétur.

Arnar Sif Ásgrímsdóttir átti frábæran leik í hjarta varnarinnar hjá …
Arnar Sif Ásgrímsdóttir átti frábæran leik í hjarta varnarinnar hjá Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alveg sama um spárnar

Valskonur hafa fagnað sigri á Íslandsmótinu undanfarin tvö tímabil og þá er liðið einnig ríkjandi bikarmeistari en liðinu er spáð misjöfnu gengi hjá spámönnum í sumar.

„Mér er alveg sama um þessar spár. Mótið spilast bara eins og það spilast en markmiðin okkar eru mjög skýr: við viljum vinna alla þá titla sem í boði eru og komast áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og þannig er það.

Ég skal alveg viðurkenna það að undirbúningstímabilið hefur verið mjög krefjandi og við höfum verið að glíma við mikið af meiðslum. Á sama tíma sýnir þetta hversu miklir karakterar þessar stelpur eru, að koma til baka, eftir öll þau áföll sem við höfum lent í að undanförnu.“

Ísabella Sara Tryggvadóttir og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir eigast við á …
Ísabella Sara Tryggvadóttir og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir eigast við á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alltaf jafn gaman

Pétur er búinn að vera lengi í bransanum en hann lék sem atvinnumaður í Belgíu og Hollandi áður en hann snéri sér að þjálfun árið 1994.

„Ég verð eiginlega að segja það að þetta er alltaf jafn gaman, annars væri maður ekki að standa í þessu held ég. Mér finnst rosalega gaman að þjálfa þetta Valslið og þetta er eitt það besta sem ég hef gert í lífinu: að þjálfa kvennalið Vals,“ bætti Pétur við í samtali við mbl.is.

Það var hart tekist á á Hlíðarenda.
Það var hart tekist á á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert