Gamla ljósmyndin: Mættu Finnum fyrir 40 árum

Morgunblaðið/KÖE

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tók á móti Finnlandi í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum í gærkvöldi. Þessar sömur þjóðir áttust við hér á Íslandi fyrir fjórum áratugum síðan. Ísland og Finnland mættust í undankeppni EM 1984 hinn 21. ágúst 1983 og var þá leikið á Kópavogsvellinum. 

Ekki var Knattspyrnusamband Evrópu að stressa sig á því að fljúga dómaratríói til landsins vegna leiksins en í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að Óli Ólsen hafi dæmt leikinn og línuverðir voru Eysteinn Guðmundsson og Björn Björnsson. Ekki þarf hins vegar að hafa áhyggjur af því að möguleg heimadómgæsla hafi ráðið úrslitum því Finnland sigraði 2:0. 

Lið Íslands var þannig skipað: Guðríður Guðjónsdóttir, Arna Steinsen, Ásta B. Gunnlaugsdóttir Erla Rafnsdóttir, Erna Lúðvíksdóttir, Jóhanna Pálsdóttir, Kristín Arnþórsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Rósa Valdimarsdóttir (Margrét Sigurðardóttir), Bryndís Einarsdóttir og Magnea Magnúsdóttir (Ragnheiður Víkingsdóttir). 

Á myndinni sækir Laufey Sigurðardóttir að marki Finna í leiknum. Laufey var ein snjallasta knattspyrnukona landsins á þessum árum eins og sést á markafjölda hennar fyrir uppeldisfélagið ÍA. Lék hún 146 leik í efstu deild fyrir ÍA og skoraði 123 mörk. Fyrir Stjörnuna lék hún 32 leiki í efstu deild og skoraði 15 mörk. Laufey var í fyrsta kvennalandsliði Íslands sem mætti Noregi árið áður. Lék hún alls 18 A-landsleiki fyrir Ísland. 

Myndina tók Kristján Örn Einarsson fyrir Morgunblaðið og í baksýn má sjá Magneu Helgu Magnúsdóttir. sem einnig var í fyrsta landsliði Íslands og lék hún alls 11 A-landsleiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert