Frábær sigur KA sem fer með góða forystu til Írlands

Sveinn Margeir Hauksson skorar annað mark KA.
Sveinn Margeir Hauksson skorar annað mark KA. mbl.is/Hákon

KA er í góðri stöðu eftir fyrri leik liðsins gegn írska liðinu Dundalk í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla. KA vann heimaleikinn í kvöld, 3:1.

KA spilaði, líkt og í síðasta einvígi sínu gegn velska liðinu Connah’s Quay Nomads, heimaleik sinn á Framvellinum í Úlfarsárdal. Umgjörð KA-manna í kringum leikinn var til mikillar fyrirmyndar og eiga þeir hrós skilið fyrir það.

Sveinn Margeir Hauksson fagnar marki í kvöld.
Sveinn Margeir Hauksson fagnar marki í kvöld. mbl.is/Hákon

Gestirnir frá Írlandi byrjuðu leikinn betur og pressuðu heimamenn af krafti fyrstu mínúturnar. Þegar leið á unnu KA-menn sig þó inn í leikinn og var jafnræði með liðunum næstu mínútur. Rodri, sem lék í stöðu miðvarðar hjá KA í fjarveru Ívars Arnar Árnasonar sem var frá vegna meiðsla, fékk dauðafæri þegar korter var liðið af leiknum en hann átti þá skot sem fór af varnarmanni og í þverslánna úr teignum eftir aukaspyrnu.

Skömmu síðar fékk vinstri bakvörðurinn Birgir Baldvinsson svo hörkufæri hjá KA en hann fékk boltann þá á fjærstönginni, fór á hægri fótinn en setti boltann fram hjá markinu af stuttu færi. 

Ásgeir Sigurgeirsson og Daniel Kelly eigast við í kvöld.
Ásgeir Sigurgeirsson og Daniel Kelly eigast við í kvöld. mbl.is/Hákon

Á 28. mínútu leit fyrsta markið svo dagsins ljós. KA-menn geystust þá upp í skyndisókn þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson setti boltann í hlaupið hjá Bjarna Aðalsteinssyni rétt fyrir utan vítateig gestanna. Bjarni gerði frábærlega, fór inn á teiginn, fram hjá varnarmanni sem rann í leiðinni, og kláraði svo glæsilega fram hjá varnarlausum Nathan Shepperd í marki Dundalk. 

Gestirnir voru þó ekki lengi að jafna metin en þar var á ferðinni þeirra líflegasti maður, vinstri vængmaðurinn Daniel Kelly. Varnarmenn KA náðu þá ekki að glíma nægilega vel við fyrirgjöf frá hægri og barst boltinn að lokum til Kelly í teignum, sem kláraði mjög vel fram hjá Kristijan Jajalo úr þröngu færi.

Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttunni í kvöld.
Hallgrímur Mar Steingrímsson í baráttunni í kvöld. mbl.is/Hákon

Það leið ekki á löngu þar til KA var komið aftur yfir og aftur kom markið eftir skyndisókn. Daníel Hafsteinsson fékk boltann þá á miðjunni og þræddi Svein Margeir Hauksson í gegn með glæsilegri sendingu. Sveinn, sem var í virkilega góðu hlaupi, gerði allt rétt og kláraði af yfirvegun fram hjá Shepperd með þéttingsföstu skoti í bláhornið.

KA-menn voru ekki hættir en liðið skoraði sitt þriðja mark á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Enn kom það eftir skyndisókn og aftur var Sveinn Margeir á ferðinni. Daníel Hafsteinsson setti boltann þá upp hægri vænginn í hlaupaleiðina hjá Ásgeiri Sigurgeirssyni sem gerði mjög vel, beið eftir aðstoð og lagði boltann svo út í teiginn á Hallgrím Mar. Hallgrímur var í hörku skotfæri utarlega í teignum en lét boltann rúlla á milli fóta sér, beint fyrir fætur Sveins Margeirs sem skoraði með hnitmiðuðu skoti í bláhornið frá vítateigslínu. Þetta var algjörlega frábært mark eftir frábæra sókn.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri en sá fyrri framan af en KA-menn léku skynsamlega, voru þéttir, vörðust vel og alltaf klárir að bruna fram í skyndisóknir. Gestirnir voru meira með boltann en náðu þrátt fyrir það lítið sem ekkert að skapa. 

Á 72. mínútu fékk þó varamaðurinn John Martin tvö hörkufæri í sömu sókninni en eftir að Kristijan Jajalo hafði varið skalla frá honum fékk hann boltann aftur og náði skoti liggjandi, en Daníel Hafsteinsson var þá mættur til að bjarga á marklínu.

Þegar leið á seinni hálfleikinn þyngdist pressa gestanna jafnt og þétt en áfram varðist KA-liðið mjög vel. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en allt kom fyrir ekki og KA fer því með góða tveggja marka forystu til Írlands.

KA 3:1 Dundalk opna loka
90. mín. Það verður þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert