Mun stærra lið en íslenskir fjölmiðlar hafa gert sér grein fyrir

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var eðlilega ánægður með sína menn eftir sigur á írska liðinu Dundalk, 3:1, í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

„Ég er bara ánægður. Þetta eru virkilega sterk úrslit á móti góðu atvinnumannaliði. Við förum til Írlands með 3:1-forystu og erum ánægðir en það er bara hálfleikur.

Þetta lið er betra en liðin sem við sjáum hérna heima. Þetta er atvinnumannalið. Það gerðist hið ótrúlega að þeir gistu á sama hóteli og við, sem ég vona að gerist ekki aftur. Við reyndum að umgangast þá sem minnst en þeir mæta með 50 manns, leikmenn og starfslið. Þetta er lið sem er búið að fara tvisvar í riðlakeppni Evrópudeildar, sem íslenskt lið hefur aldrei gert, svo þetta er mun stærra lið en íslenskir fjölmiðlar hafa gert sér grein fyrir.“

Hallgrímur segir sína menn ætla að fara í seinni leikinn úti í Írlandi og spila sinn leik en ekki verja forystuna.

„Okkar leið til að fara áfram er að spila boltanum með jörðinni, láta hann ganga, þora að halda í hann og þora að fara fram á við. Ef þetta verður leikur þar sem eru bara návígi og fyrirgjafir verður þetta mjög erfitt því þar eru þeir mjög sterkir. Þess vegna er ég gríðarlega ánægður með að við lifðum af hérna í lokin því menn voru orðnir þreyttir. Okkur tókst ekki að halda nógu vel í boltann og við vorum að verjast of mikið, of lengi.

Við erum í góðri stöðu en úti þurfum við að spila eins og við gerðum á köflum í kvöld. Menn þurfa að vera duglegir að bjóða sig í réttu svæðunum og þora að spila, þá eru mestar líkur á að við getum komist áfram.“

Leikjaálagið hefur verið mikið á KA undanfarnar vikur en auk Bestu deildarinnar er liðið að spila Evrópuleiki ásamt því að vera komið í úrslitaleik bikarkeppninnar.

„Menn elska þetta en þetta mun fara að bíta aðeins í menn núna, þetta er það mikið. Við erum að ferðast miklu meira en öll önnur lið og ég vildi óska þess að KSÍ myndi fresta þessum deildarleikjum, en það er bara því miður ekki hægt.

Ég er búinn að vera að hvetja strákana til að hugsa alveg ótrúlega vel um sig og gera hvað sem er til að vera klárir. Alveg sama hversu erfitt þetta verður, verður það vel þess virði ef við förum áfram.“

Færeyingurinn Jóan Edmundsson kom inn á sem varamaður hjá KA í kvöld og lék þar með sinn fyrsta leik fyrir félagið.

„Hann kom bara á fyrstu æfinguna sína í gær svo við erum bara rétt að kynnast honum. Það er gaman fyrir hann að koma inn á og áhorfendur að sjá hann, þetta er hörkuleikmaður sem mun gera mikið fyrir okkur. Hann er ekki búinn að æfa með liði núna í mánuð svo hann mun koma rólega inn í þetta en hann er gæðaleikmaður.

Þetta er góður strákur, mjög rólegur. Hann er flottur liðsmaður, ég hef spilað með honum og kunni vel við hann. Þetta er frábær strákur eins og flestir, ef ekki allir Færeyingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert