Það átti að stimpla okkur

Viktor Karl Einarsson á fleygiferð í kvöld.
Viktor Karl Einarsson á fleygiferð í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við erum gríðarlega svekktir að missa af þessum tveimur stigum,“ sagði Viktor Karl Einarsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins við Stjörnuna í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

„Við hefðum getað klárað þetta í lokin og fengum fullt af sénsum til að klára þennan leik. Við sýndum líka góðan karakter með að svara eftir að við lentum undir. Það er eitthvað til að byggja ofan á.

Það vantaði bara lokahnykkinn á sóknirnar. Við sköpuðum okkur fullt af færum og áttum stangarskot, sem var nálægt því að fara í stöng og inn. Færið í lokin var svo dauðafæri, sem hefði gaman að sjá í netinu,“ útskýrði Viktor

Stjörnumenn fengu þrjú gul spjöld á fyrstu 20 mínútunum og var ljóst að gestirnir ætluðu að láta meistarana finna fyrir því. „Það var augljóst hvernig uppleggið var; að stimpla okkur aðeins. Við svöruðum því og það bítur ekkert á okkur. Við svöruðum á sama hátt og reyndum að halda áfram að spila fótbolta,“ sagði Viktor.

Breiðablik er nú sjö stigum á eftir toppliði Víkings úr Reykjavík og Víkingarnir eiga leik til góða. „Við verðum að taka einn leik í einu og gera okkar. Við getum ekki verið að pæla í öðrum. Nú er leikur í Danmörku,“ sagði Viktor Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert