Útilokar alls ekki að taka við KR

Óskar Hrafn Þorvaldsson útilokar ekki að taka við KR-ingum.
Óskar Hrafn Þorvaldsson útilokar ekki að taka við KR-ingum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Það er pirringur eftir að hafa tapað þessum leik. Það er það sem er að fara í gegnum hausinn á mér eins og er,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, fráfarandi þjálfari karlaliðs Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 0:2-tap liðsins gegn Stjörnunni í lokaumferð Bestu deildarinnar í dag.

Óskar stýrði Breiðabliki í síðasta skipti í leiknum, en tímabil Breiðabliks hefur verið ansi viðburðaríkt. Hefur liðið spilað 45 leiki á tímabilinu og verða þeir að minnsta kosti fjórir til viðbótar í Sambandsdeildinni, þar sem liðið er komið í riðlakeppnina.

Evrópuævintýrið hefur haft neikvæð áhrif á gengi Breiðabliks í deildinni, þar sem liðið var í basli seinni hlutann, eftir flotta byrjun. 

„Við vorum orkulitlir í fyrri hálfleik. Það er sagan okkar seinni hlutann af deildinni. Það hefur vantað kraft. Kannski er það byrjað að telja að þetta sé 45. leikurinn á tímabilinu. Í seinni hálfleik var góð orka í liðinu.

Óskar Hrafn Þorvaldsson ætlar að heimsækja soninn.
Óskar Hrafn Þorvaldsson ætlar að heimsækja soninn. mbl.is/Hákon Pálsson

Við sóttum framarlega á þá en þá getur myndað pláss. Eggert Aron, Hilmar, Emil og Adolf eru hættulegir á stórum svæðum. Við leystu það samt vel og við vorum alltaf líklegir til að skora. Guð má vita hvað hefði gerst ef við hefðum náð einu marki,“ útskýrði Óskar.

Breiðablik hefur tapað sjö leikjum af síðustu átta í öllum keppnum, en af þeim eru tveir leikir í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Óskar segir töpin ekki hafa áhrif á sálarlíf leikmanna.

„Það góða við þetta lið er að það sækir enginn sjálfsmynd sína í úrslitin. Auðvitað er aldrei gaman að tapa, það er ömurleg tilfinning, en við höfum búið til frammistöðukúltúr frekar en úrslitadrifinn kúltúr. Þá er auðveldara að standa upp eftir töp.

Þetta er ekki farið að setjast á sálina, en auðvitað vilja metnaðarfullir menn ná árangri. Árangurinn í deildinni er ekki eins og við viljum, það er alveg klárt,“ sagði Óskar.

Hann fer til Noregs á morgun í viðræður við Haugesund, sem leikur í efstu deild þar í landi. Óskar er óviss hvað bíður hans ytra.

Kristinn Steindórsson í hasar í leiknum í dag.
Kristinn Steindórsson í hasar í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það verður að koma í ljós. Ég er að fara til Noregs á morgun. Ég veit ekki hvað er að fara að gerast þarna úti. Ég fer ekki út með neinar væntingar um að ég sé nálægt þessu starfi. Ég hef ekki hugmynd um það. Ég fer út með opinn hug og svo sjáum við hvað gerist.“

Óskar hefur verið orðaður við uppeldisfélagið KR og hann útilokar ekki að færa sig í Vesturbæinn, þar sem Rúnar Kristinsson hefur lokið störfum. 

„Það er alls ekki útilokað. Það er ekkert útilokað. Ég þarf auðvitað að vinna. Ég fer til Noregs og við sjáum hvernig það þróast. Svo vil ég hitta börnin mín í útlöndum,“ sagði Óskar, en sonur hans Orri Steinn Óskarsson leikur með FCK í Danmörku og dóttir hans Emelía Óskarsdóttir með Kristianstad í Svíþjóð.

Oliver Sigurjónsson með boltann í dag.
Oliver Sigurjónsson með boltann í dag. mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert