Óskar ósáttur með tímasetninguna: Miklar tilfinningar

Halldór Árnason og mögulegur eftirmaður hans hjá Breiðabliki.
Halldór Árnason og mögulegur eftirmaður hans hjá Breiðabliki. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfaði karlalið Breiðabliks í fótbolta í síðasta skipti er liðið tapaði fyrir Stjörnunni, 0:2, í lokaumferð Bestu deildarinnar í dag. Óskari var tjáð á fundi í vikunni að ekki yrði óskað áfram eftir starfskröftum hans.

Í viðtali við mbl.is eftir leik viðurkenndi Óskar að það væri mikið um tilfinningar vegna starfslokanna.

„Þær eru auðvitað blendnar. Við hefðum viljað fá meira út úr þessum leik. Við vildum enda fyrir ofan Stjörnuna og ná þriðja sætinu. Það eru miklar tilfinningar í gangi. Ég er búinn að vera hérna í fjögur ár og það er skrítið að hætta að vinna með mönnum sem maður hefur unnið með í langan tíma. Það verður nýr veruleiki á morgun,“ sagði Óskar.

Hann ætlaði að hætta með liðið eftir leiktíðina, en forráðamenn félagsins ákváðu að láta hann fara eftir leikinn í dag í staðinn. Má því segja að hann hafi verið leystur frá störfum.

„Ég er ósáttur við tímasetninguna á því, en það hefur allt sinn enda. Ég fór á fund með þeim á mánudaginn og bað um að fá að hætta eftir tímabilið, eftir riðlakeppnina í Sambandsdeildinni, og þeir tóku mig á orðinu og báðu mig að hætta eftir þennan leik. Ég er ósáttur með að fá ekki að klára riðlakeppnina. En oft ræður þú ekki þínu örlögum,“ sagði Óskar.

En hvers vegna vildi hann hætta með Breiðablik eftir leiktíðina?

„Það hefur allt sinn lokapunkt. Ég vildi hafa möguleikana opna, hvort sem það er erlendis, hérlendis eða í einhverju öðru. Það verður að koma í ljós,“ sagði hann.

Á meðal líklegra eftirmanna Óskars er Halldór Árnason, sem hefur starfað náið með Óskari hjá Breiðabliki undanfarin ár.

„Ég myndi halda að það væri eðlilegast að Halldór taki við. Hann er frábær þjálfari sem hefur staðið sig vel, en það er ekki mitt að segja um það,“ sagði Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert