Mudryk skaut Úkraínu á EM og Íslandi úr leik

Ísland verður að sætta sig við að komast ekki í lokakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir ósigur gegn Úkraínu í úrslitaleiknum í Wroclaw í Póllandi í kvöld, 2:1.

Albert Guðmundsson kom Íslandi yfir á 30. mínútu með glæsilegu marki og þannig var staðan í hálfleik. Viktor Tsygankov jafnaði fyrir Úkraínu á 54. mínútu og Mykhailo Mudryk, leikmaður Chelsea, skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

Úkraína fer því í E-riðilinn á Evrópumótinu í Þýskalandi í sumar og mætir þar Rúmeníu, Slóvakíu og Belgíu.

Albert Guðmundsson fagnar glæsimarki sínu í kvöld.
Albert Guðmundsson fagnar glæsimarki sínu í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Leikurinn var í jafnvægi nokkurn veginn frá byrjun og liðin sóttu til skiptis. Úkraínumenn þó heldur meira, ef eitthvað var, vel studdir af 33 þúsund stuðningsmönnum sínum.

Fyrstu færin komu eftir stundarfjórðung. Á 14. mínútu átti Jón Dagur Þorsteinsson hörkuskot rétt utan vítateigs sem Andriy Lunin varði vel og strax í næstu sókn komst Viktor Tsyganov í skotfæri í íslenska vítateignum en hitti ekki markið.

Glæsilegt mark Alberts

En eftir jafna baráttu dró heldur betur til tíðinda á 30. mínútu. Albert Guðmundsson fékk boltann rétt utan vítateigs, plataði varnarmann og lék á annan og skaut síðan mögnuðu vinstrifótarskoti í hægra hornið, alveg út við stöng. Ísland var komið yfir, 1:0, og leikmennirnir fögnuðu vel fyrir framan íslenska áhorfendahornið.

Úkraína jafnar metin.
Úkraína jafnar metin. Ljósmynd/Alex Nicodim

Úkranínumenn virtust slegnir en tóku svo við sér og Georgiy Sudakov átti hörkuskot eftir sprett inn í vítateiginn hægra megin og Hákon Rafn Valdimarsson varði vel í horn.

Á 39. mínútu sendi Roman Yaremchuk boltann í mark Íslands frá vítateig eftir sendingu Viktors Tsygankovs frá hægri. Úkraína virtist hafa jafnað en eftir nokkra bið var markið dæmt af vegna rangstöðu. Staðan var því 1:0 í hálfleik.

Úkraínumenn komu af miklum krafti inn í síðari hálfleikinn og eftir þrjár hornspyrnur og þunga pressu kom jöfnunarmarkið á 54. mínútu. Liðin áttu þá reyndar hraðar sóknir til skiptis. Jón Dagur Þorsteinsson var stöðvaður á síðustu stundu í vítateig Úkraínumanna sem brunuðu upp. Tsygankov fékk boltann, lék að vítateignum og skoraði með föstu skoti í vinstra hornið niðri, 1:1.

Ljósmynd/Alex Nicodim

Úkraínumenn sóttu áfram af miklum þunga og íslenska liðið átti hvað eftir annað í vök að verjast í og við eigin vítateig. Yaremchuk átti skot í hliðarnetið, Hákon Rafn varði frá Sudakov og Mykolenko skaut framhjá marki Íslands af stuttu færi.

En íslenska liðið stóð þetta af sér og svaraði fyrir sig. Jón Dagur var nærri því búinn að skora á 77. mínútu þegar hann átti glæsilegt skot rétt innan vítateigshornsins vinstra megin. Lunin varði glæsilega í horn.

Hákon Arnar skaut framhjá af stuttu færi eftir hornspyrnuna og mínútu síðar komst Jón Dagur inn í sendingu og gaf á Albert sem var kominn inn á markteig og skaut í varnarmann og í horn.

Ljósmynd/Alex Nicodim

Á 82. mínútu átti síðan Jóhann Berg Guðmundsson góða skottilraun utan vítateigs en rétt framhjá markinu.

En svo kom reiðarslagið á 84. mínútu. Mykhailo Mudryk fékk boltann við miðja vítateigslínu Íslands og skoraði með föstu skoti í vinstra hornið, 2:1.

Íslenska liðinu tókst ekki að skapa sér færi til að jafna metin á lokamínútunum og Úkraínumenn sigldu heim sanngjörnum sigri þegar á heildina er litið.

En þrátt fyrir talsverðan sóknarþunga Úkraínu í síðari hálfleik átti Ísland sín tækifæri til að komast yfir á ný og liðið gaf sig ekki fyrr en flautað var af.

Úkraína 2:1 Ísland opna loka
90. mín. Jóhann Berg Guðmundsson (Ísland) fær gult spjald Stöðvar snögga sókn Úkraínumanna. Tók eitt fyrir liðið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert