Þjóðverjar sterkari á lokakaflanum

Steffen Fäth sækir að vörn Tékka í kvöld.
Steffen Fäth sækir að vörn Tékka í kvöld. AFP

Þjóverjar lögðu Tékka af velli, 22:19 í fyrsta leik sínum í milliriðli á Evrópumóti karla í handbolta sem fram fer í Króatíu. Staðan var 18:16 fyrir Tékka þegar skammt var eftir en með glæsilegum lokakafla tókst Þjóðverjum að tryggja sér sigur.

Steffen Fäth var langbesti útileikmaður Þjóðverja og skoraði hann átta mörk. Tomas Cip gerði sex fyrir Tékka. Markmenn Þjóðverja stóðu fyrir sínu. Silvio Heinevetter varði 12 skot og var með 41% markvörslu og Andreas Wolff varði þrjú af fjórum skotum sem hann fékk á sig.

Með sigrinum fóru Þjóðverjar á toppinn í milliriðli tvö, en sigri Danir Slóvena á eftir verður toppsætið Dana. 

mbl.is