Cavani og Vidic til Englands?

Edinson Cavani í búningi París SG.
Edinson Cavani í búningi París SG. AFP

Á meðal baksíðufrétta í ensku dagblöðunum í morgun eru fregnir um að úrúgvæski framherjinn Edinson Cavani og serbneski miðvörðurinn Nemanja Vidic gætu  verið á leið í ensku úrvalsdeildina.

Cavani, sem leikur með París SG, er orðaður við bæði Manchester United og Arsenal. Sagt er að umboðsmaður framherjans hafi haft samband við forráðamenn United og Cavani sé ofarlega á óskalistanum hjá Arsene Wenger og Arsenal. Daily Star flytur þessar fréttir. Cavani er metinn á um 50 milljónir punda.

Nemanja Vidic, sem var fyrirliði og sigursæll leikmaður Manchester United um árabil, er laus allra mála hjá Inter Mílanó og hefur verið orðaður við lið í bandarísku MLS-deildinni. Nú er hinsvegar sagt að Aston Villa hafi verið boðið að fá hann í sínar ráðir, og þarf þá að sjálfsögðu ekki að borga fyrir hann. Þetta er á baksíðu The Sun.

Þá segir Daily Mail að Liverpool hafi hafnað fyrirspurn frá Swansea vegna miðjumannsins Joe Allen, sem á sínum tíma kom á Anfield frá Swansea. Sagt er að velska liðið sé líklegt til að reyna aftur að fá Allen til sín í sumar.

mbl.is