Herrera úr leik næstu vikurnar

Ander Herrera.
Ander Herrera. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, staðfesti á fréttamannafundi í dag að spænski miðjumaðurinn Ander Herrera verði frá keppni næstu vikurnar.

Herrera haltraði af velli eftir aðeins 14 mínútna leik í leiknum gegn Sevilla í Meistaradeildinni og leysti Frakkinn Paul Pogba hann af hólmi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um Pogba og samskipti hans við Mourinho en franski miðjumaðurinn var settur á bekkinn í leiknum á móti Sevilla og hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína.

„Ég tel að Pogba hafi brugðist vel við og af fagmennsku bæði með því að byrja á bekknum og eins þegar hann kom inn á. Hann var á bekknum í deildarleiknum á móti Huddersfield í deildinni og brást vel við því og það sama gerði hann í leiknum á móti Sevilla.

Það er erfiðara að koma inn á heldur en að byrja leikina. Það var margt jákvætt við frammistöðu hans og hann hjálpaði liðinu. Hugarfarið verður öðruvísi,“ segir Mourinho.

Líklegt er að Pogba verði í byrjunarliðinu á sunnudaginn en þá tekur Manchester United á móti Chelsea í stórleik umferðarinnar.

mbl.is