Martial vill yfirgefa United

Anthony Martial hefur beðið um að fá að yfirgefa Manchester …
Anthony Martial hefur beðið um að fá að yfirgefa Manchester United. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Anthony Martial vill yfirgefa herbúðir Manchester United en það er umboðsmaður hans sem greindi frá þessu í morgun. Martial hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði United síðan José Mourinho tók við stjórnartaumunum á Old Trafford sumarið 2016.

„Eftir að hafa íhugað málið vel þá vill Anthony Martial yfirgefa Manchester United,“ asgði Philippe Lamboley, umboðsmaður hans í samtali við RMC Sport. „Þegar félag eins og Manchester United, sem er stærsta knattspyrnufélag heims, getur ekki náð samkomulagið við þig eftir átta mánaða viðræður þá er nokkuð augljóst að þeir sjá þig ekki sem mikilvægan leikmann í liðinu,“ sagði Lamboley að lokum.

United hefur reynt að framlengja samning sinn við sóknarmanninn að undaförnu en nú virðast viðræður hans og félagsins hafa siglt í strand. Martial er  einungis 22 ára gamall en hann kom til United árið 2015. Hann byrjaði 18 leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir félagið þar sem hann skoraði níu mörk og lagði upp önnur fimm á þessari leiktíð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert