Áhyggjufullur Mourinho veit ekkert

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, sat fyrir svörum á sínum fyrsta blaðamannafundi í sumar en hann er staddur í Los Angeles þar sem æfingabúðir United eru haldnar.

United mætir Club America frá Mexíkó í fyrsta æfingaleik sumarsins á föstudaginn kemur en portúgalski stjórinn hefur áhyggjur af leikmannahópi sínum, enda margir af leikmönnum liðsins ekki mættir til æfinga eftir langt og strangt heimsmeistaramót í Rússlandi.

„Undirbúningstímabilið er ekki gott, ég er án margra leikmanna. Þetta er þó gott tækifæri fyrir ungu strákana sem fá smjörþefinn af því hvað það er að vera leikmaður meistaraflokks. Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki hafa áhyggjur af þessu.“

Að sama skapi segist Mourinho ekkert vita um hvort félagið kaupi fleiri leikmenn en þeir Fred, Diago Dalot og Lee Grant hafa komið til liðsins í sumar.

„Ég hef ekki hugmynd, ég veit ekkert. Við fengum Grant vegna þess að við eigum ungan markvörð sem verður lánaður út. Við keyptum Fred vegna þess að við misstum Michael Carrick og Dalot er meiddur.“

mbl.is