Verður erfitt að stöðva Gylfa

Gylfi og Aron í baráttu við Mateo Kovacic á HM …
Gylfi og Aron í baráttu við Mateo Kovacic á HM í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Einar Gunnarsson vonast til að mæta Gylfa Þór Sigurðssyni þegar Everton og Cardiff eigast við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park á morgun.

Gylfi hefur verið glíma við meiðsli eftir ljóta tæklingu sem hann varð fyrir í leiknum á móti Chelsea fyrir hálfum mánuði. Gylfi var hins vegar mættur á æfingu Everton-liðsins í gær og þar með standa vonir til þess að hann verði klár í slaginn.

„Everton hefur verið að gera betur á þessu tímabili heldur en í fyrra. Nýi stjórinn þeirra hefur breytt mörgum hlutum. Ég veit ekki hvort Gylfi verði 100% klár því hann var ekki með íslenska landsliðinu. Hann fékk högg á ökklann gegn Chelsea. Það var ekki gott að sjá þessa tæklingu. Hún var ljót og leit ekki vel út í hægri endursýningu,“ segir Aron Einar við enska blaðið Liverpool Echo en hann og Gylfi hafa spilað lengi saman með landsliðinu og yngri landsliðunum.

„Gylfi hefur verið að standa sig virkilega vel. Hann er spila sína uppáhaldsstöðu, í tíunni. Auk hæfileikanna og tækninnar þá er einn duglegasti leikmaðurinn. Ég veit hversu mikilvægur leikmaður hann hefur verið fyrir íslenska landsliðið og nú er hann að gera það sama fyrir Everton, skora mörk og gefa stoðsendingar. Það verður erfitt að stöðva hann en þetta snýst samt ekki bara um hann. Það er fleiri leikmenn sem hafa verið að gera það gott á tímabilinu. Ég hlakka til að mæta Gylfa á nýjan leik,“ segir Aron Einar.

„Við ræðum saman á hverjum degi og höfum gert það síðan vorum saman í U17 ára landsliðinu svo við þekkjum hvor annan vel, við erum góðir vinir. Ég veit hvað hann er fær um að gera. Ég þekki styrkleika hans og veikleika hans, sem eru ekki margir en þeir eru nokkrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert