Brjálaður vegna Klopp og ótrúleg saga Origi

Jürgen Klopp faðmar Divock Origi eftir leikinn.
Jürgen Klopp faðmar Divock Origi eftir leikinn. AFP

Umræðan eftir ótrúlegan 1:0-sigur Liverpool á Everton í grannaslag liðanna í kvöld var heldur betur lífleg en það var belgíski sóknarmaðurinn Divock Origi sem skoraði sigurmarkið í sínum fyrsta deildarleik á tímabilinu.

Divock Origi skorar markið í kvöld.
Divock Origi skorar markið í kvöld. AFP

En það var ekki bara Origi sem fólk talaði um heldur einnig Jürgen Klopp sem stormaði inn á völllinn er Belginn skoraði. Það voru ekki allir hressir með það.

„Hann var heppinn að það var ekki ég sem hann hljóp framhjá á vellinum. Það er einmitt eitt af vandamálunum sem svona lagað skapar,“ sagði harðjaxlinn Danny Mills sem er sérfræðingur hjá  BBC. Mills vill meina að Klopp fái betri meðferð en aðrir stjórar. „Það eru margir stjórar sem myndu vera gagnrýndir harðlega fyrir þetta en Klopp er svo vingjarnlegur í fjölmiðlum. Það virðast allir elska hann og hann getur því ekki gert neitt rangt,“ sagði Danny Mills.

Á sama tíma fögnuðu Liverpool-menn með Origi sem hefur átt erfitt uppdráttar á ferli sínum, allt frá því að hann var tæklaður illa á ökkla árið 2016 í leik gegn Everton. Hann spilaði t.d. ekki með Liverpool í fyrra og fékk sitt fyrsta tækifæri í deildinni núna á þessu tímabili.

„Þetta er alveg frábær saga. Að Divock Origi hafi skorað markið. Hann varð fyrir hörmulegum meiðslum í öðrum grannaslag sem varð mikið högg fyrir hans feril. Nú er hann kominn til baka, kom inn á og skoraði þetta mark. Þetta er mjög kúl,“ segir Klopp.

Jürgen Klopp horfir á eftir Divock Origi er hann var …
Jürgen Klopp horfir á eftir Divock Origi er hann var borinn af velli eftir harða tæklingu gegn Everton í apríl 2016. AFP

Markið var einkar skrautlegt og kom eftir afar misheppnaða skottilraun Virgil van Dijk. Boltinn endaði aftur á móti ofan á markinu og þaðan skoppaði hann á endanum til Origi.

Origi viðurkenndi raunar sjálfur að hann hefði snúið sér við svekktur er hann sá skot van Dijk.

„Þetta er mjög sérstakt augnablik. Ég ætla að njóta augnabliksins. Þetta er sérstakt fyrir félagið og borgina og ég er mjög ánægður. Þetta var innsæið held ég. Ég vissi að það koma svona boltar. Ég reyndi að vera á tánum og Virgil gaf góða stoðsendingu,“ sagði Origi eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka