Getur ekki haldið að hann sé stærri en Mourinho

Paul Pogba.
Paul Pogba. AFP

Darren Fletcher fyrrverandi leikmaður Manchester United gagnrýnir Paul Pogba í kjölfar brottreksturs José Mourinho úr starfi knattspyrnustjóra félagsins.

Pogba birti mynd af sér á samfélagsmiðlum í gær skömmu eftir að fréttir bárust af brottrekstri Mourinho. Á myndinni var Pogba brosandi og hann óskaði eftir hugmyndum um fyrirsögn við myndina. Færslan var skömmu síðar tekin út.

„Pogba hefur ekki verið í góðum málum undanfarnar vikur og hann þarf að fá spark í rassinn. Að birta þessa mynd hvort sem það var hann eða eitthvert lið frá Adidas sem hann er að vinna með var alveg út úr korti. Þetta er mikið áhyggjuefni að mínu mati. Allir ræddu um hver færi, verður það Pogba eða Mourinho?

Ef Pogba fer að halda að hann sér stærri heldur en Mourinho þá er það okkar næsta vandamál. Það verður að ná stjórn á Paul Pogba og segja; Heyrðu þetta hefur ekki verið barátta á milli Mourinho og Pogba og þú hefur unnið. Þú verður að sanna þig,“ segir Fletcher.

mbl.is