Barton enn og aftur í bann

Joey Barton kallar ekki allt ömmu sína.
Joey Barton kallar ekki allt ömmu sína. Ljósmynd/fleetwoodtownfc.com

Joey Barton, knattspyrnustjóri Fleetwood Town, var í dag úrskurðaður í tveggja leikja bann og gert að borga sekt upp á 2.000 pund vegna ummæla sinna í garð dómara leiks Fleetwood og Bristol Rovers í ensku C-deildinni. 

Barton var rekinn upp í stúku í leiknum sem fór fram 22. desember og sagði í kjölfarið að hann vonaðist til að dómarinn Brett Huxtable, myndi aldrei dæma leik með Fleetwood aftur. 

Bristol Rovers skoraði sigurmark í uppbótartíma í leiknum gegn Fleetwood-liði sem fékk átta gul spjöld og eitt rautt spjald. 

„Það var eins og við værum að spila við fleiri en 11 leikmenn," sagði Barton eftir leik. „Ég verð að passa mig að segja ekki meira því við vitum öll hvað gerist ef maður segir nákvæmlega það sem manni finnst um dómara, en vonandi sjáum við þessa dómara aldrei aftur," bætti Barton við. 

Barton þekkir það ansi vel að taka út leikbönn, en hann fékk ófá rauð spjöld á ferli sínum sem leikmaður, auk þess sem hann fór í langt bann fyrir að brjóta veðmálareglur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert