Bolton Wanderers á leið í gjaldþrot?

Guðni Bergsson í búningi Bolton.
Guðni Bergsson í búningi Bolton. Ljósmynd/Andrew Budd

Enska knattspyrnufélagið Bolton Wanderers, sem margir Íslendingar hafa spilað með í gegnum tíðina, verður tekið til gjaldþrotaskipta á morgun ef marka má fréttaflutning Sky Sports. 

Um nokkra hríð hefur fjárhagsstaða félagsins verið mjög veik og voru fluttar af því fréttir í vetur að illa hafi gengið að greiða reikninga og laun. 

Svo virðist sem stjórnendur félagsins séu að missa stjórnina og félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta og í framhaldinu verði reynt að fá eins mikið upp í kröfur eins og hægt er. 

Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þetta hefur á félagið innan deildakeppninnar á Englandi ef félagið myndi halda áfram starfsemi hjá nýjum eigendum. Sky Sports telur að það myndi þýða að tólf stig yrðu dregin af liðinu. 

Bolton er í b-deildinni ensku en er ekki líklegt til að halda sæti sínu. Liðið er í 23. sæti með 29 stig og er átta stigum á eftir liðunum sem eru í sætunum fyrir ofan fallsvæðið. 

Margir Íslendingar hafa leikið fyrir Bolton og eru það ekki ómerkari leikmenn en Eiður Smári Guðjohnsen, Guðni Bergsson og Arnar Gunnlaugsson sem allir náðu sér vel á strik hjá Bolton og Guðni var fyrirliði liðsins í mörg ár. Fleiri íslenskir leikmenn komu þar við og má þar nefna Birki Kristinsson og Ólaf Pál Snorrason. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert