Barcelona með augastað á Lindelöf

Victor Lindelöf.
Victor Lindelöf. AFP

Spænskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Spánarmeistarar Barcelona ætli að reyna að fá sænska miðvörðinn Victor Lindelöf frá Manchester United í sumar fari svo að það nái ekki að krækja í Hollendinginn Matthijs de Ligt frá Ajax.

Lindelöf, sem er 24 ára gamall og kom til Manchester United frá Benfica fyrir tveimur árum fyrir 31 milljón punda, var einn af betri leikmönnum United á síðustu leiktíð og er Svíinn í miklu uppáhaldi hjá fjölmörgum stuðningsmönnum liðsins.

Að því er fram kemur í spænska blaðinu Mundo Depotivo hefur Barcelona sett sig í samband við United um hugsanleg kaup á Lindelöf en forráðamenn Manchester-liðsins eru ekki sagðir reiðubúnir að láta Svíann fara. Lindelöf á tvö ár eftir af samningi sínum við enska liðið.

Flest bendir til þess að Matthijs de Ligt velji að fara til Ítalíumeistara Juventus en lið eins og Barcelona, Manchester United, Liverpool og Paris SG hafa sýnt mikinn áhuga á að fá hann til liðs við sig í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert