Bruce ræðir við Newcastle

Steve Bruce hefur víða komið við sem knattspyrnustjóri.
Steve Bruce hefur víða komið við sem knattspyrnustjóri. AFP

Talsverðar líkur virðast á því að Steve Bruce verði næsti knattspyrnustjóri Newcastle United sem leitar að eftirmanni Rafael Benítez en hann hætti með liðið í síðasta mánuði og fór til Kína.

Bruce staðfesti í dag að hann hefði átt viðræður við Newcastle en hann er núna við stjórnvölinn hjá Sheffield Wednesday í ensku B-deildinni.

Bruce, sem er 58 ára gamall, tók við Wednesday í janúar á þessu ári eftir að honum hafði verið sagt upp störfum hjá Aston Villa í október, en þar hafði hann verið stjóri í tvö ár.

Áður hefur Bruce stýrt liðum Hull, Sunderland, Wigan, Birmingham, Crystal Palace, Huddersfield og Sheffield United. Hann lék á sínum tíma 737 leiki í ensku deildakeppninni og þar af voru 309 leikir með Manchester United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert