Strákarnir blómstruðu hjá Arsenal

Eddie Nketiah skoraði tvö mörk í kvöld.
Eddie Nketiah skoraði tvö mörk í kvöld. AFP

Enska liðið Arsenal lék Fiorentina frá Ítalíu grátt í kvöld þegar liðin mættust í alþjóðlega mótinu Champions Cup í Charlotte í Bandaríkjunum.

Arsenal sigraði 3:0 og ungu leikmennirnir voru í sviðsljósinu því Eddie Nketiah skoraði tvö markanna og Joe Willock eitt.

Nketiah er tvítugur Englendingur sem hefur verið í röðum Arsenal í fjögur ár og spilað átta úrvalsdeildarleiki og fjölda leikja með yngri landsliðum Englands. Willock er 19 ára, uppalinn hjá Arsenal og hefur spilað fjóra úrvalsdeildarleiki ásamt fjölda yngri landsleikja.

mbl.is