Hafnaði United vegna Mourinho

Christian Pulisic var eftirsóttur af stærstu liðum Englands.
Christian Pulisic var eftirsóttur af stærstu liðum Englands. AFP

Christian Pulisic, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Chelsea, var eftirsóttur í janúarglugganum en hann valdi að lokum að ganga til liðs við Chelsea. Chelsea keypti Pulisic af Borussia Dortmund en Bandaríkjamaðurinn var lánaður aftur til Þýskalands í janúar og kláraði því tímabilið með Dortmund.

Telegraph greinir frá því í dag að í desember hafi Pulisic einnig verið í viðræðum við Manchester United. José Mourinho var þá knattspyrnustjóri United en hann var rekinn frá félaginu 18. desember síðastliðinn. Breski miðillinn segir að faðir Pulisic hafi ekki viljað sjá son sinn ganga til liðs við United þar sem Mourinho var knattspyrnustjóri.

„José Mourinho er ástæða þess að Pulisic fór ekki til Untied,“ sagði Robin Walker, fyrrverandi þjálfari leikmannsins, í samtali við Telegraph. „Faðir hans þoldi ekki Mourinho, meðal annars vegna þess að hann var ekki duglegur að gefa ungum leikmönnum tækifæri, og því fór sem fór,“ sagði Walker.

mbl.is