Biðstaða í samningamálum De Gea

David de Gea hefur verið fyrirliði Manchester United í fyrstu …
David de Gea hefur verið fyrirliði Manchester United í fyrstu leikjum tímabilsins. AFP

David de Gea, markmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, verður samningslaus næsta sumar. Honum er því frjálst að ræða við önnur lið í janúar á næsta ári en hann hefur verið orðaður við bæði Real Madrid og PSG undanfarna mánuði.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í sumar að De Gea hefði samþykkt að skrifa undir nýjan fimm ára samning við United en markmaðurinn verður 29 ára gamall í nóvember. Þá mun hann þéna í kringum 350.000 pund á viku á næstu árum.

Markmaðurinn hefur hins vegar ekki ennþá skrifað undir nýja samninginn og greina enskir fjölmiðlar frá því að leikmaðurinn gæti beðið með að skrifa undir þangað til í janúar á næsta ári. 

Ensku götublöðin greina frá því að fari svo að United mistakist að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð þurfa allir leikmenn liðsins að taka á sig 25% launalækkun. De Gea gæti því beðið fram í janúar með að skrifa undir en PSG er sagt fylgjast grannt með gangi mála.

mbl.is