Samdi aftur við Tottenham

Michel Vorm í leik með Tottenham á síðasta ári.
Michel Vorm í leik með Tottenham á síðasta ári. AFP

Markmaður Michel Vorm hefur skrifað undir samning við enska knattspyrnufélagið Tottenham sem gildir út leiktíðina en það eru hollenskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Vorm hefur verið án félags síðan samningur hans við Tottenham rann út í sumar.

Hann þekkir vel til hjá félaginu en hann gekk til liðs við Tottenham frá Swansea, sumarið 2014, og lék með liðinu í fimm ár. Vorm er 35 ára gamall en honum er ætlað að fylla skarð Hugo Lloris hjá félaginu sem verður frá vegna meiðsla næstu mánuðina.

Lloris fór úr olnbogalið í 3:0-tapi Tottenham gegn Brighton á útivelli í byrjun október en Paulo Gazzaniga kom inn á í hans stað í leiknum. Tottenham hefur ekki byrjað tímabilið neitt sérstaklega vel en liðið er í níunda sæti deildarinnar með 11 stig eftir fyrstu átta umferðirnar.

mbl.is