Bað Evra afsökunar átta árum síðar

Luis Suárez var dæmdur í átta leikja bann fyrir kynþáttaníð …
Luis Suárez var dæmdur í átta leikja bann fyrir kynþáttaníð í garð Patrice Evra árið 2011. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, hefur beðið Patrice Evra, fyrrverandi fyrirliða Manchester United, afsökunar á atviki sem átti sér stað í desember 2011. Þann 20. desember var Luis Suárez, þáverandi framherji Liverpool, dæmdur í átta leikja bann fyrir kynþáttaníð í garð Evra sem átti sér stað í leik Liverpool og United 15. október 2011.

Þann 21. desember mættust Wigan og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni en leikmenn Liverpool hituðu upp í bolum merktum Suárez og vildu þannig sýna framherjanum stuðning eftir að hann var fundinn sekur um kynþáttaníð. „Við gerðum hrikalega mistök, á því leikur enginn vafi,“ sagði Carragher í sjónvarpsþættinum Monday Night Football á Sky Sports í gær en Evra var gestur í þættinum. 

„Ég man ekki nákvæmlega hvernig málin þróuðust en þegar við komum til Wigan spurði einhver úr þjálfarateyminu hvort við ætluðum að hita upp í þessum bolum. Það var í fyrsta skiptið sem ég heyrði af þessu máli. Ég er ekki að ljúga þegar ég segi að ég var ekki hluti af þessu. Félagið tók illa á málinu en ég held að Kenny Daglish, sem þá var stjóri Liverpool, hafi ekki átt neinn þátt í þessu.“

„Ég held að leikmennirnir sem stóðu Suárez næst í klefanum hafi viljað sýna honum stuðning. Ég get alveg sagt það núna að mig skorti hugrekki til að stíga upp á þessum tímapunkti. Ég held að allir hjá Liverpool hafi verið meðvitaðir um að þetta var rangt en á sama tíma snerist þetta um að sýna leikmanni liðsins stuðning á erfiðum tíma. Það vissu allir að þetta var rangt og ég biðst afsökunar á þessu,“ bætti Carragher við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert