Hörmungar Stoke halda áfram

Hal Robson-Kanu innsiglaði sigur WBA í kvöld.
Hal Robson-Kanu innsiglaði sigur WBA í kvöld. AFP

WBA endurheimti toppsætið í ensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld þegar liðið hafði betur gegn stjóralausu liði Stoke City á útivelli 2:0.

Matthew Phillips og Hal Robson-Kanu úr vítaspyrnu settu mörkin fyrir WBA sem er með 30 stig í efsta sæti deildarinnar eftir 15 leiki og er tveimur stigum fyrir ofan Preston, Leeds og Swansea.

Það blæs ekki byrlega fyrir gamla Íslendingaliðinu. Stoke situr eitt og yfirgefið á botni deildarinnar með aðeins 8 stig en félagið rak stjórann Nath­an Jo­nes frá störfum á föstudaginn.

mbl.is