Kane sló met og jafnaði annað

Harry Kane fagnar eftir sigur Englendinga í gær.
Harry Kane fagnar eftir sigur Englendinga í gær. AFP

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, setti met þegar hann skoraði eitt af mörkum Englendinga í 4:0 sigri gegn Kósóvum í undankeppni EM í gær.

Kane skoraði þar með í öllum átta leikjum Englendinga í undankeppninni og er fyrsti leikmaður enska landsliðsins sem tekst að afreka að skora í öllum leikjum liðsins í undankeppni.

Kane skoraði 12 mörk í undankeppninni og er markahæstur en undankeppninni lýkur annað kvöld. Ísraelsmaðurinn Evan Zahavi og Cristiano Ronaldo koma næstir með 11 mörk.

Kane hefur nú skorað samtals 32 mörk fyrir enska landsliðið. Hann jafnaði met í gær yfir flest mörk skoruð á almanaksári en árið 1908 skoraði George Hilsdon 12 mörk og það sama gerði Dixie Dean árið 1927.

mbl.is