Jákvæðar fréttir úr herbúðum Liverpool

Fabinho var í algjöru lykilhlutverki á miðjunni hjá Liverpool áður …
Fabinho var í algjöru lykilhlutverki á miðjunni hjá Liverpool áður en hann meiddist. AFP

Liverpool fær Manchester United í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á sunnudaginn kemur en Liverpool er í efsta sæti deildarinnar með 61 stig á meðan United er í fimmta sætinu með 34 stig.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti það á blaðamannafundi í vikunni að hann vonaðist til þess að þeir Dejan Lovren, Fabinho og Joel Matip gætu allir tekið virkan þátt í æfingum liðsins í aðdraganda leiksins.

Leikmennirnir þrír hafa allir verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur en Matip hefur sem dæmi ekkert spilað síðan United og Liverpool gerðu 1:1-jafntefli á Old Trafford í lok október. Þá hafa þeir Fabinho og Loveren verið meiddir síðan í nóvember.

Óvíst er hvort leikmennirnir verði tilbúnir til þess að byrja leikinn en bæði Matip og Fabinho voru lykilmenn í liðinu áður en þeir meiddust. Klopp er hins vegar vongóður um að leikmennirnir geti tekið einhvern þátt í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert