Sancho nálægt samkomulagi við Manchester United

Jadon Sancho virðist vera á leiðinni til Manchester.
Jadon Sancho virðist vera á leiðinni til Manchester. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jadon Sancho og forráðamenn Manchester United eru nálægt samkomulagi um kaup og kjör leikmannsins fyrir fyrirhuguð félagsskipti hans til Englands frá Dortmund í Þýskalandi.

Sancho, sem skoraði 17 mörk og lagði annað eins upp í þýsku efstu deildinni á síðustu leiktíð, hefur verið sterklega orðaður við Manchester United undanfarna mánuði og Sky Sports segir nú frá því að leikmaðurinn og félagið séu búin að semja í meginatriðum.

Dortmund vill 120 milljónir evra fyrir leikmanninn og hefur gefið enska félaginu frest til 10. ágúst til að gera kauptilboð. Manchesterfélagið er sagt tilbúið að greiða uppsett verð, en í nokkrum afborgunum, nokkuð sem þýska félagið er einnig opið fyrir. Fabrizio Romano, blaðamaður Guardian, segir félögin langt komin í samræðum sínum og að leikmaðurinn bíði bara eftir að samkomulag náist.

Það er því útlit fyrir að Sancho verði fyrsti leikmaðurinn sem United kaupir í sumar en hann yrði dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi. Paul Pogba var keyptur frá Juventus fyrir 100 milljónir sumarið 2016. Sancho hefur verið hjá Dortmund síðan 2017 er hann var keyptur frá Manchester City fyrir um tíu milljónir punda.

mbl.is