Svona er manni þakkað traustið

Það er orðið ansi langt síðan Mesut Özil lék síðast …
Það er orðið ansi langt síðan Mesut Özil lék síðast með Arsenal. AFP

Mesut Özil, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er ekki í leikmannahóp liðsins í ensku úrvalsdeildinni fyrir tímabilið 2020-21.

Þjóðverjinn, sem er 32 ára gamall, er samningsbundinn Arsenal til sumarsins 2021 en enska félagið reyndi að losna við leikmanninn í sumar, án árangurs.

Özil er launahæsti leikmaður í sögu félagsins með 350.000 pund á viku en það samsvarar um 63 milljónum íslenskra króna á viku.

Özil er ekki sáttur við stöðu sína hjá félaginu en Þjóðverjinn hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.

„Ég er virkilega vonsvikinn með þá ákvörðun félagsins að ég sé ekki í leikmannahópnum fyrir keppnistímabilið í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Özil á samfélagsmiðlinum Instagram.

„Ég skrifaði undir nýjan samning við félagið árið 2018 þar sem ég sýndi klúbbnum ákveðið traust og svona er manni þakkað traustið.

Mér hefur alltaf liðið vel hjá félaginu og lít á London sem mína heimaborg. Ég lofa að halda áfram að berjast fyrir sæti mínu í liðinu og ég er staðráðinn í að láta mitt áttunda tímabil hjá félaginu ekki enda svona,“ sagði Özil meðal annars.

mbl.is