Sá fjórði sem spilar fyrir Arsenal

Rúnar Alex Rúnarsson
Rúnar Alex Rúnarsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúnar Alex Rúnarsson er fjórði íslenski knattspyrnumaðurinn sem spilar fyrir aðallið enska stórliðsins Arsenal. 

Leikur Arsenal og Dundalk í Evrópudeildinni hófst klukkan 20 og er Rúnar í markinu. 

Sigurður Jónsson hefur leikið flesta leiki Íslendinga fyrir Arsenal en hann lék nokkra leiki fyrir Arsenal á árunum 1989 - 1991 þar til bakmeiðsli bundu endi á dvöl hans hjá félaginu. Arsenal var enskur meistari þegar liðið keypti hann fyrir talsverða upphæð sumarið 1989 og liðið varð aftur meistari árið 1991. Sigurður skoraði fyrir Arsenal í deildarleik tímabilið 1989-1990. 

Sigurður Jónsson í leik með Arsenal.
Sigurður Jónsson í leik með Arsenal. mbl.is/Árni Sæberg

Albert Guðmundsson lék tvo leiki með Arsenal í deildinni árið 1946 þótt hann hafi ekki getað gert atvinnumannsamning við félagið án atvinnuleyfis. 

Albert Guðmundsson í búningi Arsenal.
Albert Guðmundsson í búningi Arsenal.

Ólafur Ingi Skúlason lék einn leik með aðalliði Arsenal árið 2003 og var það gegn Wolves í deildabikarnum en hann var í röðum félagsins í fjögur ár og spilaði með unglinga- og varaliði þess.

Fleiri Íslendingar hafa verið hjá Arsenal til lengri eða skemmri tíma eins og Ríkharður Jónsson og bræðurnir Valur Fannar og Stefán Gíslasynir. En þeir léku ekki mótsleiki með Arsenal. 

Ólafur Ingi í leiknum gegn Wolverhampton Wanderers.
Ólafur Ingi í leiknum gegn Wolverhampton Wanderers. Ljósmynd/Stuart MacFarlane
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert