Rooney ráðinn knattspyrnustjóri Derby

Wayne Rooney er tekinn við sem knattspyrnustjóri Derby.
Wayne Rooney er tekinn við sem knattspyrnustjóri Derby. AFP

Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, var í dag ráðinn knattspyrnustjóri B-deildarliðsins Derby County.

Rooney, sem er 35 ára gamall, kom til félagsins sem spilandi aðstoðarstjóri í ársbyrjun 2020, eftir að hafa leikið með DC United í Bandaríkjunum um skeið. Hann tók við liðinu til bráðabirgða þegar Philip Cocu var sagt upp störfum í nóvember og eigendur félagsins eru það ánægðir með hans störf frá þeim tíma að hann hefur nú verið ráðinn knattspyrnustjóri til sumarsins 2023.

Núverandi eigandi Derby, Mel Morris, og verðandi eigandi, Sheikh Khaled, sameinuðust um að ganga frá ráðningu Rooneys, en það hefur dregist talsvert að Khaled tæki endanlega við sem aðaleigandi félagsins.

Rooney hefur snúið gengi Derby til betri vegar síðan í nóvember. Liðið byrjaði tímabilið hörmulega, vann einn af fyrstu þrettán leikjunum og sat á botni B-deildarinnar. Undir stjórn Rooneys hefur Derby aðeins tapað tvisvar í níu leikjum, situr nú í 22. sæti af 24 liðum og á möguleika á að komast úr fallsæti þegar liðið mætir Rotherham á morgun.

Hefur gjörbreytt liðinu á skömmum tíma

Samkvæmt Sky Sports hefur það gert útslagið fyrir eigendur Derby hvernig Rooney hefur umbylt liðsandanum og heildarbrag liðsins sem er sagt hafa gjörbreyst frá því hann tók við af Cocu í nóvember.

Sjálfur hefur Rooney leikið tíu leiki með Derby á tímabilinu og skorað eitt mark og alls gert sex mörk í 30 leikjum frá því hann kom til félagsins. Hann hyggst  nú leggja fótboltaskóna á hilluna og einbeita sér að nýja starfinu.

Rooney lék með Everton frá 2002 til 2004, með Manchester United frá 2004 til 2017 þar sem hann varð fimm sinnum enskur meistari og síðan með Everton tímabilið 2017 til 2018. Hann á að baki 491 leik í ensku úrvalsdeildinni og skoraði þar 208 mörk, og þá er hann markahæsti landsliðsmaður Englands með 53 mörk og sá næstleikjahæsti með 120 landsleiki.

mbl.is