Mörkin: Sprellimark í markaveislu City

Manchester City lék á als oddi þegar liðið heimsótti WBA í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leiknum lauk með 5:0-sigri City en annað mark City-manna, sem Joao Cancelo skoraði, var afar umdeilt.

Bernardo Silva var flaggaður rangstæður í aðdraganda marksins og leikmenn WBA svo gott sem hættu leik.

City-menn héldu hins vegar áfram, boltinn barst til Joao Cancelo sem skoraði við lítinn fögnuð WBA-manna.

Ekki jókst gleði leikmanna WBA þegar markið fékk að standa en ásamt Cancelo skoraði Ilkay Gündogan tvívegis fyrir City og þeir Rihyad Mahrez og Raheem Sterling sitt markið hvor.

Mörkin má sjá í myndskeiðinu en leikur WBA og Manchester City var sýndur beint á Síminn Sport.

mbl.is