Árangursrík lánsdvöl hjá Jökli

Jökull Andrésson er 19 ára gamall markvörður.
Jökull Andrésson er 19 ára gamall markvörður. Ljósmynd/Reading

Markvörðurinn ungi Jökull Andrésson sem leikur með enska knattspyrnuliðinu Reading gerði það gott í stuttri lánsdvöl hjá enska D-deildarliðinu Morecambe.

Hann spilaði tvo leiki í sjö daga neyðarlánsdvöl, hélt markinu hreinu í tveimur sigurleikjum, og var í dag valinn í lið umferðarinnar í deildinni.

Jökull og félagar sigruðu Exeter 2:0 á útivelli í gærkvöld en Jökull hafði einmitt verið á láni hjá Exeter í nokkrar vikur fyrr í vetur og þá fengið mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína. Um síðustu helgi varði hann mark Morecambe í 3:0 sigri á Colchester.

Jökull snýr nú aftur til Reading þar sem hann er einn af fjórum markvörðum í aðalliðshópnum en Morecambe, sem er í þriðja  sæti D-deildarinnar eftir þessa tvo sigurleiki, samdi í gær við reyndan markvörð sem á að leika með liðinu út tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert