Tekur Lampard við Palace?

Frank Lampard gæti tekið við öðru Lundúnaliði.
Frank Lampard gæti tekið við öðru Lundúnaliði. AFP

Frank Lampard er sagður líklegastur til þess að taka við stjórnartaumunum hjá enska knattspyrnuliðinu Crystal Palace, sem leikur í ensku úrvalsdeildinni.

Telegraph greinir frá því að forsvarsmenn Palace velti því nú fyrir sér hvort þeir bjóði Roy Hodgson, núverandi knattspyrnustjóra liðsins, nýjan samning eða rói á önnur mið.

Samkvæmt miðlinum er Lampard á meðal þeirra sem eru efstir á blaði hjá Palace fari svo að leiðir Hodgsons og félagsins skilji þegar samningur hans rennur út í sumar.

Önnur nöfn sem hafa verið nefnd eru Sean Dyche, stjóri Burnley, og Eddie Howe, fyrrverandi stjóri Bournemouth, en nafn Lampards er efst á blaði.

Lampard hefur verið án atvinnu frá því að hann var rekinn frá Chelsea í lok janúar eftir eins og hálfs árs starf. Honum hefur verið boðið laust starf þjálfara U21-árs landsliðs Englands en hefur ekki þekkst það boð.

mbl.is