Kaupin á íslenska undrabarninu í uppnámi

Cecilía Rán Rúnarsdóttir er gríðarlega efnileg.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er gríðarlega efnileg. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Kaup enska knattspyrnufélagsins Everton á landsliðsmarkverðinum unga Cecilíu Rán Rúnarsdóttur eru í uppnámi vegna reglugerðar sem sett var á er Bretar sögðu sig úr Evrópusambandinu.

Erlendir leikmenn verða að vera með ákveðið mörg stig til að mega semja við félög í Englandi. Stigin fá leikmenn fyrir leiki í öðrum deildum og með landsliðum, en því sterkari sem deildin er því fleiri stig fær umræddur leikmaður.

Cecilía er ekki með nægilega mörg stig til að Everton megi kaupa hana, en hún er sem stendur leikmaður Örebro sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. Everton hafði vonast til að kaupa Cecilíu, sem nú er 17 ára, þegar hún verður 18 ára, þann 26. júlí næstkomandi.

Þess í stað þarf félagið að bíða þangað til að minnsta kosti í janúar á næsta ári. Þá vonast Everton til að markvörðurinn verði með nægilega mörg stig til að kaupin megi ganga eftir.

Everton er ekki eina félagið sem hefur áhuga á Cecilíu því West Ham, Sassuolo og Benfica eru einnig áhugasöm samkvæmt heimildum Goal. Sporting News greindi frá, en í fyrirsögn miðilsins er talað um Cecilíu sem íslenskt undrabarn.

mbl.is