Frakkinn að ná sér aftur á strik

Stutt er í að Anthony Martial geti byrjað að æfa …
Stutt er í að Anthony Martial geti byrjað að æfa á ný með Manchester United. AFP

Ant­hony Martial, fram­herji enska knatt­spyrnuliðsins Manchester United, snýr brátt aftur til æfinga með liðinu en hann hefur verið frá vegna hnémeiðsla undanfarna mánuði.

Martial meiddist í leik með franska landsliðinu í undankeppni HM í byrjun apríl og hefur engan fótbolta spilað síðan. Hann missti því af endasprettinum með United á Englandi og gat svo ekki farið á EM í sumar með Frökkum.

Ole Gunn­ar Solskjær, knatt­spyrn­u­stjóri United, segir hins vegar að endurhæfing leikmannsins gangi vel. „Hann er með hópnum á ný en ekki byrjaður að æfa. Hann er að ná sér eftir hnémeiðslin og staðan lítur vel út,“ sagði Norðmaðurinn í viðtali á heimasíðu félagsins.

Martial skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur þrjú í úrvalsdeildinni síðasta vetur í 22 leikjum.

mbl.is