„Ég er miður mín“

Harvey Elliott meiðist illa eftir tæklingu Pascal Struijk í leiknum …
Harvey Elliott meiðist illa eftir tæklingu Pascal Struijk í leiknum í gær. AFP

Pascal Struijk, varnarmaður Leeds United, sendi Harvey Elliott, miðjumanni Liverpool, skilaboð á Instagram í gær.

Struijk var rekinn af velli með beint rautt spjald í gær eftir að hann fór í Elliott þannig að miðjumaðurinn ungi sneri illa upp á ökklann. Óttast er að hann hafi ökklabrotnað.

„Í leiknum í dag gerðist nokkuð sem ég myndi aldrei nokkurn tímann óska þess að kæmi fyrir neinn. Harvey Elliott, hugsanir mínar eru hjá þér. Ég er miður mín og ætlaði mér alls ekki að gera þetta.

Ég óska þér skjóts bata og vonast eftir því að sjá þig fljótt aftur á vellinum,“ skrifaði Struijk á instagram.

Liverpool staðfesti í gær að Elliott hefði orðið fyrir alvarlegum ökklameiðslum án þess að fara nánar út í hve alvarleg þau væru. Hann fer í aðgerð vegna meiðslanna í vikunni.

Liverpool vann öruggan 3:0-sigur í leiknum í gær.

mbl.is