Samningur landsliðsþjálfarans framlengdur

Gareth Southgate heldur áfram með enska landsliðið.
Gareth Southgate heldur áfram með enska landsliðið. AFP

Gareth Southgate hefur skrifað undir nýjan samning við enska knattspyrnusambandið sem þjálfari karlalandsliðs Englands.

Southgate, sem tók við enska landsliðinu í nóvember 2016, var með samning sem átti að renna út að loknu heimsmeistaramótinu í Katar í desember 2022.

Nýi samningurinn hans gildir til ársloka 2024 og þar með er ljóst að Southgate stýrir enska liðinu í næstu Evrópukeppni en undankeppni hennar er leikin á árinu 2023 og lokakeppnin sumarið 2024.

Enska landsliðið komst í sumar í úrslitaleik Evrópumótsins þar sem það tapaði fyrir Ítalíu í vítaspyrnukeppni og náði með því sínum besta árangri í alþjóðakeppni frá því það vann heimsmeistaratitilinn árið 1966. Þá komst enska liðið undir hans stjórn í undanúrslit heimsmeistaramótsins í Rússlandi árið 2018 og fékk bronsverðlaun í Þjóðadeild UEFA.

mbl.is