„Ef ég fengi að ráða yrði ég áfram“

Mohamed Salah hefur leikið stórkostlega með Liverpool á tímabilinu.
Mohamed Salah hefur leikið stórkostlega með Liverpool á tímabilinu. AFP

Mohamed Salah, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að hann vilji gjarna semja við félagið að nýju en að það sé í höndum forráðamanna félagsins að koma samningaviðræðum í réttan farveg.

Núverandi samningur Salah rennur út sumarið 2023 og hafa viðræður um nýjan samning staðið yfir um langt skeið án þess að þeim miði mikið áfram.

„Ég hef sagt þetta þónokkrum sinnum, ef ég fengi að ráða yrði ég áfram hjá Liverpool. En ákvörðunin liggur hjá þeim sem stjórna og þeir þurfa að ráða fram úr þessu.

Það eru engin vandamál en við þurfum að komast að samkomulagi um nýjan samning, það er í þeirra höndum,” sagði Salah í samtali við egypsku sjónvarpsstöðina MBC Masr.

Hann kom þar einnig inn á fjárhagslegu hliðina, sem hann sagði vissulega mikilvæga en að samningaviðræðurnar snerust þó ekki einungis um laun.

„Fjárhagslegt virði þitt sýnir hversu mjög félagið kann að meta þig og að það sé tilbúið að gera hvað sem í valdi þess stendur til þess að tryggja að þú haldir kyrru fyrir, en ákvörðunin byggir þó ekki einungis á fjárhagslegu hliðinni.

Það koma til hlutir eins og metnaður liðsins og þjálfarans, hverju hann vill áorka með liðinu og hvaða leikmenn hann vill fá inn. Þetta eru allt mikilvægir þættir þegar kemur að því að að komast að niðurstöðu,“ sagði Salah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert