Enn dökknar útlitið hjá Leeds

Leikmenn Chelsea fagna marki Romelu Lukaku í kvöld.
Leikmenn Chelsea fagna marki Romelu Lukaku í kvöld. AFP/Oli Scarff

Chelsea er komið langleiðina með að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili eftir að hafa lagt Leeds United að velli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld, 3:0. Á meðan er Leeds í vondum málum í botnbaráttunni.

Mason Mount kom Chelsea í forystu strax á fjórðu mínútu leiksins með laglegu skoti sem söng uppi í nærhorninu.

Á 24. mínútu fékk Daniel James svo beint rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu á Mateo Kovacic og annan leikinn í röð þurfti Leeds því að leika manni færri í meira en klukkutíma.

Kovacic þurfti að fara meiddur af velli nokkrum mínútum síðar.

Á 34. mínútu fékk Romelu Lukaku gott tækifæri til þess að tvöfalda forystu gestanna en skalli hans úr miðjum vítateignum fór hárfínt framhjá markinu.

Í síðari hálfleik réð Chelsea lögum og lofum eins og við mátti búast og náði Christian Pulisic að tvöfalda forystuna á 55. mínútu þegar hann fékk opið skotfæri í D-boganum og renndi boltanum auðveldlega niður í hornið.

Á 83. mínútu gerði Lukaku svo endanlega út um leikinn með þriðja markinu þegar hann skoraði með föstu skoti af stuttu færi.

Auðveldur þriggja marka sigur Chelsea því niðurstaðan.

Eftir tapið er Leeds áfram í 18. og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fallsæti, með 34 stig, jafnmörg og Burnley í sætinu fyrir ofan en verri markatölu. Auk þess á Burnley leik til góða.

Chelsea er áfram í þriðja sæti, nú með 70 stig og þar með átta stigum fyrir ofan Tottenham Hotspur í fimmta sæti. Chelsea á tvo leiki eftir og Tottenham þrjá.

mbl.is