Potter horfir til Tottenham

Harry Kane er á óskalista Chelsea.
Harry Kane er á óskalista Chelsea. AFP/Isabel Infantes

Graham Potter, nýráðinn knattspyrnustjóri Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, vill fá Harry Kane til félagsins næsta sumar.

Það er ítalski miðillinn Calciomercato sem greinir frá þessu en Potter, sem er 47 ára gamall, tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea á dögunum eftir að Thomas Tuchel var rekinn.

Í frétt ítalska miðilsins kemur meðal annars fram að Potter sé tilbúinn að senda belgíska framherjann Romelu Lukaku til Tottenham í skiptum fyrir Kane.

Kane, sem er 29 ára gamall, er uppalinn hjá Tottenham og á að baki 395 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 254 mörk.

Framherjinn er samningsbundinn Tottenham til sumarsins 2024 en hann er sagður tilbúinn að reyna fyrir sér annars staðar, mistakist Tottenham að vinna bikar á tímabilinu.

mbl.is